fbpx

Hringiða byggð á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins

KLAK – Icelandic Startups hefur opnað fyrir umsóknir í hringrásarhraðalinn Hringiðu. Um er að ræða viðskiptahraðal sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Umsóknarfrestur er til 4. apríl, en hraðallinn hefst 25. apríl og stendur yfir í 8 vikur.

„Hraðallinn var keyrður í fyrsta skipti í fyrra en samkvæmt okkar heimildum var þetta í fyrsta skipti á heimsvísu sem er keyrður viðskiptahraðall byggður á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins,“ segir Kristín Soffía, framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups. Allt að tíu sprotaverkefni verða valin og þeim veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun.

„Hringrásarhagkerfið byggir á þeirri hugmyndafræði að allan úrgang sé hægt að nýta sem auðlind og byggir á fullnýtingu núverandi afurða frekar en nýtingu nýrra auðlinda. Fullnýting í sjávarútvegi er nú til að mynda að skila meiri afleiddum verðmætum en nýjar veiðar.“ Kristín lýsir hringrásarhagkerfinu sem endurvinnslu fyrir hagkerfið sem skapi verðmæti og störf. „Það er talið að 9.000 störf tapist árlega út af ónýttum tækifærum í hringrásarhagkerfinu. Má þar nefna vannýttan glatvarma úr iðnaði og ónýtt fullnýtingartækifæri í landbúnaði og skort á efnisendurvinnslu og meðhöndlun úrgangsefna.“

Evrópustyrkir upp á milljarða

Kristín segir að tilgangur hraðalsins sé auk þess að hjálpa fyrirtækjunum að fá styrki úr styrktarsjóðum Evrópu og er sérstök áhersla á LIFE-áætlunina en undirbúningurinn nýtist einnig fyrir aðrar áætlanir svo sem Horizon Europe. „Við höfum aðgang að flottum sjóðum í Evrópu sem skipta fyrirtæki, sem eru að byggja upp nýnæmi í hringrásarhagkerfinu, gríðarlega miklu máli,“ en Kristín segir styrkina hleypa á hundruðum milljónum og í sumum tilfellum milljörðum króna.

Evrópustyrkir LIFE-áætlunarinnar eru á vegum ESB, en lönd borga sig inn í slíkar áætlanir til að geta sótt um styrkina. Umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytið borgaði sig í fyrsta skiptið inn í LIFE-áætlunina í ár og geta íslensk fyrirtæki þar af leiðandi fengið úthlutaða styrki. „Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í LIFE-áætluninni, er takmörkuð þekking á henni innanlands. Því erum við í miklu samstarfi við Inspiralia á Spáni sem eru sérfræðingar í Evrópustyrkjum.“

Aðgangur að breiðu tengslaneti

Kristín segir Hringiðu ekki síst vera vettvang fyrir tengslanet fyrirtækja og stofnana. „Við erum með stóran og öflugan hóp af fólki sem kemur úr einkageiranum, opinbera geiranum og stofnunum sem veita fyrirtækjum í hraðlinum ráðgjöf og tengja okkur auk þess við sérfræðinga innan sem utan. Þannig fáum við aðgang að einstöku tengslaneti og þekkingu.“

Notast er við svokallaðan TRL skala þegar verkefni eru valin til þátttöku í hraðlinum en einnig til að fá LIFE styrki. TRL stendur fyrir „Technology readiness level“ og segir til um hversu langt varan er komin í þróun. Til að taka þátt í hraðlinum þurfa fyrirtæki að vera skilgreind í fjórða þrepi TRL. Þá þarf að vera komin frumgerð af vörunni, sem má vera ófullkomin. Til að fá LIFE styrk þarf varan að vera skilgreind á fimmta þrepi, eða vara sem er tilbúin til sölu. Kristín segir hraðalinn vera bæði fyrir lengra komin sprotafyrirtæki og sjálfstæð verkefni innan rótgróinna fyrirtækja og stofnana.

„Verkefnið þarf að byggja á nýrri tækni eða nýrri útfærslu af tækni. Umsóknirnar byggjast síðan á því að fyrirtækin geti útskýrt nýnæmið og hvernig þau reikna út loftslagsáhrifin af verkefninu. Auk þess þurfa þau meðal annars að útskýra hvernig þau ætla að framkvæma verkefnið og útskýra tæknilega flókna hluti sem felast í verkefninu.“

Viðtal birtist á vb.is 26. mars 2022

is_ISÍslenska