
Það markaði nýtt upphaf í viðskiptahraðlinum Hringiðu þegar KLAK – Icelandic Startups og Reykjavíkurborg stóðu fyrir kynningarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur á dögunum.
Markmiðið var að kynna Hringiðu fyrir áhugasömum sprotum á frumstigi með umhverfisvernd í fyrirrúmi.
Í hraðlinum fá sprotar aðstoð við að móta hugmyndir sínar, styrkja tengslanetið, fá aðgang að reyndum mentorum og kynna að lokum hugmyndina fyrir fjárfestum, en þátttaka í hraðlinum er ókeypis.
Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Hringiðu hjá KLAK – Icelandic Startups bauð öll velkomin í Ráðhús Reykjavíkur og kynnti Alexöndru Briem borgarfulltrúa uppá svið sem kom fram fyrir hönd Reykjavíkurborgar.
Alexandra fór yfir aðkomu Reykjavíkurborgar að Hringiðu og hvaða þýðingu hraðalinn hefur fyrir nýsköpun í hringrásarhagkerfinu. Þess má geta að Reykjavíkurborg er einn af bakhjörlum Hringiðu. Í kjölfarið hvatti hún sprota til að taka þátt í hraðlinum. Jenna Björk tók við og fór yfir það sem Hringiða mun bjóða sprotum á frumstigi í vor sem vakti mikla lukku.
Fyrrum þátttakendur í Hringiðu, þau Guolin Fang meðstofnandi Plogg-In, Óskar Svavarsson og María Kristín Þrastardóttir, stofnendur Sidewind, fóru yfir sína sprotavegferð og hvernig hraðallinn hafði mótandi áhrif á fyrirtækin.


Lokaorð Ástu Sóllilju Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra KLAK – Icelandic Startups og Jennu Bjarkar, verkefnastjóra Hringiðu var hvatning til allra viðstadda um að sækja um í Hringiðu.
Markmið Hringiðu er að á Íslandi rísi öflug fyrirtæki sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, skapa verðmæt og áhugaverð störf og skili árangri í umhverfis- og loftslagsmálum á Íslandi.
Hringiðu er ætlað að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfis- og loftslagsmálum með það fyrir augum að þátttakendur verði í lok hraðals í stakk búnir til að kynna lausnir sínar fyrir fjárfestum og sækja fjármagn sem styðja verkefni sem draga úr losun.












Umsjón með Hringiðu er í höndum KLAK – Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi.
Bakhjarlar eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn, Grænvangur, Hugverkastofa, F6S og Hringrásarklasinn.