fbpx

Framleiðsla í hringrásarhagkerfinu


KLAK – Icelandic Startups bauð í viðburð í Grósku í tilefni þess að viðskiptahraðallinn Hringiða á vegum Klak hefur nú hafið göngu sína í þriðja sinn. Þema viðburðarins var matvælaframleiðsla á sviði hringrásarhagkerfisins og var gestum boðið upp á veitingar með vörum nýsköpunarfyrirtækisins VAXA og Collab drykki frá Ölgerðinni. 


Kolfinna Kristínardóttir verkefnastjóri Hringiðu opnaði viðburðinn við mikinn fögnuð viðstaddra í Grósku en bauð hún öll velkomin til að hlýða á fyrsta erindi viðburðarins. Andri Björn Gunnarsson frá nýsköpunarfyrirtækinu og hátæknigróðurhúsinu VAXA hélt erindi um uppbyggingu og framtíð VAXA en farið var yfir nýja framleiðslutækni, þ.e. vertical farming, svokallaður lóðréttur landbúnaður sem fer fram innandyra. 


Davíð Sigurðsson vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, einn af bakhjörlum Hringiðu fór yfir vöruþróun drykksins sem byggir á íslensku hugviti. Um er að ræða sykurlausan drykk með viðbættu kollageni, sem unnið er úr aukaafurðum íslensk sjávarfang, í samstarfi við FEEL Iceland. 


Sprotafyrirtækin Mar Eco, Orb, Munasafn RVK Tool Library og Resea Energy komu fram á viðburðinum en þau eru öll þátttakendur í Hringiðu. Melta, Alor og Bambahús sem einnig eru í hraðlinum voru á fjár­festa­há­tíð Norðan­áttar sem fram fór á Siglu­firði sama dag. Öll eiga þau það sameiginlegt að leggja allan sinn metnað í að leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum. 

Teymin sem kynntu verkefnin sín eru eftirfarandi:

Mar Eco stendur fyrir Marine Ecological Solutions en markmiðið er að vinna að umhverfisvænum lausnum í framleiðslu og notkun veiðarfæra.

Orb þróar tækni til að mæla kolefnisbindingu skóga á ódýran og aðgengilegan hátt til að stuðla að ábyrgri kolefnisjöfnun og framleiðslu vottaðra kolefniseininga.

Munasafn RVK Tool Library veitir samfélögum sanngjarnan og fjárhagslegan aðgang að tólum og öðrum munum.

Resea Energy er rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem stefnir á framleiðslu á lífeldsneyti úr hrati frá ræktuðu þangi.


Umsjón með hraðlinum er í höndum KLAK sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Bakhjarlar Hringiðu eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn, Grænvangur og Orkuklasinn.

Ljósmyndari: Eygló Gísla

is_ISIcelandic