fbpx

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Hringiðu

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Hringiðu þar sem sprotafyrirtæki og nýsköpunarverkefni fyrirtækja og stofnanna sem byggja á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins eru hvött til að sækja um.

Umsóknarfrestur er til og með 4. apríl. Tekið er á móti umsóknum á vefsíðu Hringiðu.

Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins

Hringiða leggur áherslu á hringrásarhagkerfi þar sem dregið er fram, eflt og stutt nýja tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum. Viðskiptahraðallinn byggir á alþjóðlegri fyrirmynd með skýri nálgun á umsóknarferlum á Evrópustyrkjum. 

Þungamiðjan í hraðlinum felst í skipulögðum fundum þátttakenda með reyndum frumkvöðlum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum. Um er að ræða sannreynt ferli þar sem allt að tíu sprotaverkefnum er veittur aðgangur að breiðu tengslaneti leiðbeinenda úr atvinnulífinu og markvissri þjálfun sem miðar að því að koma vöru á markað. Þátttakendur verði í lok hraðals í stakk búnir að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum og leggja fram vandaðar umsóknir um styrki í Evrópusjóði, svo sem LIFE og Horizon 2020.

Kristínar Soffíu Jónsdóttur framkvæmdastjóra Icelandic Startups segir að mikil gróska er í nýsköpun á Íslandi. ,,Heildarfjármögnun Icelandic Startups nam í fyrra um 140 milljónum króna en á sama tíma hafa þau fyrirtæki sem tóku þátt í okkar verkefnum safnað yfir 600 milljónum í fjármögnun. Það þýðir að hver króna skilar sér fjórfalt til baka. Auk þess vinna fjölmörg þessara fyrirtækja að lausnum á aðsteðjandi loftslagsvanda og má þar nefna IceWind, Hemp Pack og SoGreen sem dæmi svo ávinningur er mikill.“

Umsjón með hraðlinum er í höndum Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Bakhjarlar eru Orkuveita Reykjavíkur, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Reykjavíkurborg, Sorpa og Terra.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir við undirritun samnings við Icelandic Startups um stuðning við hringrásarhraðalinn Hringiðu; „Til ná markmiðum okkar í umhverfismálum verðum við að nýta okkar helstu auðlind, hugvitið. Þessi undirritun í dag er liður í að styrkja frumkvöðla til góðra verka,“. 

is_ISÍslenska