fbpx

Næsta kynslóð norrænna sjóða verður til

Klak – Icelandic startups er hluti af norrænu samstarfi í svokölluðu VC Challenge sem var hleypt af stokkunum í Kaupmannahöfn í síðustu viku. VC Challenge er námskeið fyrir verðandi sjóðsstjóra vísisjóða á Norðurlöndum og hefur Klak í nokkra mánuði unnið með fulltrúum VC Challenge við að þróa og kynna námskeiðið og finna áhugasama fulltrúa frá Íslandi til að taka þátt í því sem og íslenska mentora úr sjóðaumhverfinu til að leiðbeina þáttakendum. Markmiðið er að koma Íslandi í norrænt samstarf sem miðar að því að gera verðandi sjóðsstjóra í stakk búna til að safna í og stýra vísisjóðum, veita þeim aðgang að sérfræðingum á þessu sviði og aðgang að mikilvægu tengslaneti. 

Að VC Challenge standa ýmsir aðilar úr stuðningsumhverfi nýsköpunar á Norðurlöndum, m.a. Startup Norway, Helsinki Partners, Klak – Icelandic Startups, Canute og Nordic Node en þessir aðilar keyra VC Challenge námskeiðið með stuðningi frá bakhjörlum á borð við Nordic Innovation, Denmark‘s Export and Investment Fund, íslenska sjóðasjóðnum Kríu og fleirum sterkum aðilum frá Norðurlöndunum. Þetta er í þriðja sinn sem VC Challenge er haldið og í ár taka 20 teymi þátt í dagskránni, þar af 5 teymi frá Íslandi sem eru að skoða möguleikana á að safna í sjóð.

Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður er bakhjarl VC Challenge en Sæmundur K. Finnbogason, sjóðsstjóri Kríu segir, “Það er afar ánægjulegt að Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður sé einn af bakhjörlum VC Challenge fyrir árið 2023. Við erum sérstaklega ánægð með sameiginleg markmið Kríu og VC Challenge, sem er að styðja við og hvetja til frekari uppbyggingu vísisjóða [sérhæfða fjárfestingasjóða] og búa til enn öflugra fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki

VC Challenge er framúrskarandi námskeið þar sem reynslumiklir, alþjóðlegir kennarar eru í lykilhlutverki við að styðja og leiðbeina nýjum sjóðsstjórum í þeirra vegferð að stofna nýja sérhæfða fjárfestingarsjóði á markaðnum. Með samstarfi Kríu og VC Challenge er verið að bæta og efla nýsköpunarumhverfi Íslands og þar sem þetta er samnorrænt námskeið er einnig verið að styrkja tengingar og samvinnu nýrra sjóðsstjóra á Norðurlöndunum.“

Vísisjóðir fjárfesta að jafnaði í 20 sprotafyrirtækjum á 4 ára tímabili og verja miklum tíma og fjármagni til að styðja við vöxt og þróun þessara sprotafyrirtækja svo þau fái að dafna vel. Þannig styður VC Challenge óbeint við 400 efnileg sprotafyrirtæki á Norðurlöndum sem skilar sér margfalt til baka og eflir markaðinn svo um munar, flýtir fyrir nýsköpun og hjálpar til við að búa til fleiri árangurssögur.

Haft er eftir Kristjáni Inga Mikaelssyni, eins stofnenda MGMT Ventures.

Með samnorræna samstarfinu á vegum VC Challenge fáum við ýmis tól og tæki í farteskið til að efla okkar starf og sækja fram með félögin okkar á erlendri grundu. Það er kominn tími á að efla grundvöll fjárfestinga á fyrstu stigum á Íslandi með meiri fagmennsku og fyrirsjáanleika. Frábært starf hefur verið unnið í seinni stigs fjárfestingarstigum undanfarin ár, en fyrsti syllan hefur svolítið gleymst.“

Það er augljóst þegar komið er á alþjóðlegan vettvang eins og VC Challenge hvað við íslendingar höfum mikið fram að færa og eftir okkur er tekið. Lyft hefur verið grettistaki í umgjörð nýsköpunar hér á landi sem nálgast það sem gerist best erlendis, en þó skortir okkur betra flæði og samfellu í fjármögnunarfasa nýsköpunarfyrirtækja. VC Challenge er því heillaskref til að styðja við aðila eins og okkur að koma upp formi af sjóð sem þekkist ekki fyrir hérlendis.“ Segir Kristján að lokum.

is_ISÍslenska