fbpx

Vel heppnuð kynningarferð Startup Tourism – umsóknarfrestur til 13. október!

Undanfarna daga hefur KLAK teymið verið á faraldsfæti og komið við í öllum landshlutum til þess að kynna viðskiptahraðalinn Startup Tourism sem fer af stað í lok október mánaðar.

Fyrsti kynningarviðburður Startup Tourism fór fram í ESSO safninu í Reykjavík þann 26. september og mættu áhugasamir frumkvöðlar og aðilar úr stuðningsneti ferðaþjónustu og nýsköpunar vel á þennan hádegisviðburð, umkringd áhugaverðum safnmunum sem minntu á langa sögu ferðaþjónustu á Íslandi. 

Viðburðurinn setti tóninn fyrir hringferðina sem hófst svo þann 30. september með tveimur kynningarviðburðum á suðurlandi, annars vegar á Selfossi og hins vegar í Vík í Mýrdal. Daginn eftir voru haldnir viðburðir með sama sniði á Berjaya hótelunum á Höfn og Egilsstöðum og hélt teymið svo áfram áleiðis norður og gisti í Mývatnssveit. Annan október var haldinn kynningarviðburður á Berjaya á Akureyri þar sem Startup Tourism hraðlinum voru gerð skil og fyrrum þátttakandi hraðalsins, María Pálsdóttir frá Hælinu, sagði frá reynslu sinni. 

Sauðárkrókur og Akranes voru svo sótt heim síðasta dag hinnar eiginlegu hringferðar og voru viðtökur þar með ágætum. Þriðjudaginn 8. október var haldinn kynningarfundur í húsakynnum Samtaka Sveitarfélaga á Suðurnesjum á Ásbrú og þann 9. október var síðasti fundurinn í þessari kynningarfundaröð haldinn á Ísafirði. 

KLAK teymið vill þakka kærlega fyrir móttökur á hverjum og einum stað. Það eru mikil verðmæti fólgin í því að hitta frumkvöðla, fulltrúa úr atvinnulífinu og stuðningsumhverfi nýsköpunar af öllu landinu og skapa vettvang fyrir tengslamyndun og virkt samtal. Mikil gróska hefur verið í ferðaþjónustu undanfarin ár og tækifæri fyrir viðskiptahraðal miðaðan að greininni eru ótal mörg. 

Opið var fyrir umsóknir í Startup Tourism hraðalinn til og með 13. október en munu allt að 10 teymi verða valin til þátttöku. Tilkynnt verður hvaða teymi komast að fimmtudaginn 17. október og hraðallinn hefst þann 28. október.

Bakhjarlar Startup Tourism gerðu KLAK teyminu mögulegt að fara í þessa kynningarferð um landið en þeir eru Berjaya Iceland Hotels, Icelandair, N1, Icelandia, Menningar- og viðskiptaráðuneytið og Faxaflóahafnir, auk þess sem Íslenski ferðaklasinn / Iceland Tourism og Íslandsstofa koma að verkefninu sem samstarfsaðilar. 

Að lokum fær bílaleigan Blue Car rental sérstakar þakkir en á glæsilegum bíl frá þeim komst teymið öruggt á milli staða. 

is_ISÍslenska