Startup SuperNova Masterclass hefst í lok júní og því var efnt til svo kallað Klúðurkvöld þar sem stofnendur fyrirtækja sögðu frá því klúðri sem þau lentu í við að starta nýju fyrirtæki. Um 70 galvaskir gestir mættu á Kex Hostel til að hlýða á Svein Biering, stjórnarformann Vaxa og fjárfestir, Helgu Waage, framkvæmdastjóra og meðstofnanda Mobilitus, Stefán Baxter, stofnanda og forstjóra Quick Lookup, Guðmund Árnason, fjármálastjóra Controlant, Magnús Árnason framkvæmdastjóra stafrænnar þróunnar hjá Nova.
Klúðurkvöld er vel þekkt erlendis og er að festa sig í sessi hér á landi þar sem einstaklingar úr atvinnulífinu segja frá mistökum sem hafa verið gerð á ferlinum. Slíkur viðburður er mikil skemmtun og þekkt fyrir spaugilegar og hnyttnar sögur sem geta verið absúrdískar. Öllu gamni fylgir nokkur alvara og því eru þessar sögur fyrir aðra að læra af og góð áminning um að ekki gengur allt hnökralaust fyrir sig. Rauðu þráðurinn var gott skipulag fyrirtækisins og ekki of flókið viðskiptaplan. Margir frumkvöðlar sem hafa náð miklum árangri eru oftar en ekki þau sem hafa gert stærstu mistökin. Þau sem komu fram á kvöldinu á Kex töluðu um mikilvægi þess að velja gott teymi sem er þungamiðjan í þeirri vegferð sem fyrirtækið er að fara á. Fyrir utan að skoða innlendan og erlendan markað vel ættu stofnendur að gera viðeigandi áætlun um þegar á móti blæs og líka þegar fyrirtækið fær aukinn byr undir seglin.
Startup SuperNova er samstarfsverkefni Klak – Icelandic Startups og Nova þar sem tíu sprotar fá aðstoð við að byggja upp viðskiptalausnir. Þátttaka í Startup SuperNova miðar að því að hraða framgangi fyrirtækja og gera þau að álitlegum fjárfestingarkosti. Þátttakendur fá fræðslu og þjálfun við þróun viðskiptahugmynda sinna og aðgang að hópi leiðandi sérfræðinga, þar á meðal reyndum frumkvöðlum og fjárfestum.