Marel á Íslandi hafa ákveðið að stíga inn sem samstarfsaðilar um vaxtarrýmið (e.incubator) Snjallræði og undirritaði Ólafur Karl Sigurðarson fyrir hönd Marel saming við KLAK þar sem að Marel skuldbindur sig til að styðja við verkefnið með fjármagn og þekkingu.
Vaxtarrýmið Snjallræði hófst formlega þriðjudaginn 23. ágúst og eru þau 10 teymi sem valin voru komin á fullt að þróa áfram sínar hugmyndir og verkefni. Snjallræði var stofnað af Höfða Friðarsetri árið 2018 en er núna keyrt af KLAK – Icelandic Startups í annað sinn.
„Við erum virkilega ánægð með það hversu ört hefur fjölgað í hópi þeirra fyrirtækja sem styðja vilja styðja við samfélagslega nýsköpun í gegnum Snjallræði. Marel er auðvitað eitt af flottustu nýsköpunarfyrirtækjum landsins og inn þess býr ómetanleg þekking sem okkur tekst vonandi að miðla til þeirra teyma sem stíga sín fyrstu skref í Snjallræði en ætla sér auðvitað að breyta heiminum til góðs.“
– Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK
Markmið Snjallræðis er að styðja við samfélagslega nýsköpun og ýta þannig undir verkefni og frumkvöðla sem stuðla að jákvæðum samfélagslegum breytingum með sinni nýsköpun. Snjallræði er keyrt í samstarfi við MIT DesignX og er þetta fyrsta árið af þriggja ára samstarfi og má segja að með þessu samstarfi sé verið að auka gæði og þekkingu innan íslenska stuðningsumhverfi nýsköpunar.
„Það er sönn ánægja fyrir okkur hjá Marel að styðja Snjallræði, sem styður öflug teymi sem brenna fyrir lausnum á áskorunum samtímans. Hugmyndafræðin er frábær, þar sem teymi fá fræðslu og þjálfun frá bæði innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði nýsköpunar“ – Ólafur Karl Sigurðarson, forstöðumaður vöruþróunar Marel.