
KLAK og viðskiptahraðallinn Hringiða tóku forskot á sæluna og buðu öllum í Prosecco & Pitch degi fyrir sumardaginn fyrsta við hinn fræga gróðurvegg í Grósku þar sem fjárfestar, þyrstir sprotar og almenningur hlýddu á lyftukynningar sprotafyrirtækja í Hringiðu.
Það ríkti mikil spenna og eftirvænting fyrir lyftukynningunum sem sprotafyrirtækin í Hringiðu fluttu. Fyrirtækin hafa undanfarnar vikur setið vinnustofur, hlýtt á fyrirlestra, fundað með útvöldum sérfræðingum úr mentorasamfélgi KLAK, KLAK VMS og fengið þjálfun í að koma fram. Öll hafa þau unnið hörðum höndum að því að koma lausnum sínum, sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum, í góðan farveg.
Freyr Friðfinnsson, alþjóðafulltrúi KLAK, opnaði viðburðinn, bauð öll velkomin á Prosecco & Pitch og skálaði fyrir sprotunum í Hringiðu við mikinn fögnuð viðstaddra.
Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunarteymis Reykjavíkurborgar, fulltrúar bakhjarlar Hringiðu, stigu á svið og gáfu tóninn með áhugaverðum erindum um hringrásarhagkerfið áður en sprotarnir í Hringiðu tóku við og héldu lyftukynningar.
Umsjón með Hringiðu hraðlinum, sem keyrður er í þriðja sinn í ár, er í höndum KLAK – Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi. Áhersla í vinnustofum Hringiðu er hringrásarhagkerfið þar sem dregnar eru fram aðferðir og stutt við nýja tækni sem tryggir að auðlindum sé haldið í hagkerfinu.
Ljósmyndari – Eygló Gísladóttir























Eigendur KLAK eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Origo, Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarsjóður. Bakhjarlar Hringiðu eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn, Orkuklasinn og Grænvangur.