fbpx

Huawei gerist bakhjarl Startup SuperNova 2023

Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK-Icelandic Startups, Beatriz Garcia Martinez, samskiptasérfræðingur hjá Huawei og Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri Nova upplifunar.

Kínverski fjarskiptarisinn Huawei kemur inn sem nýr styrktaraðili Startup Supernova í ár. 

Startup SuperNova er samstarfsverkefni Klak – Icelandic Startups og Nova sem hefur verið bakhjarl hraðalsins frá upphafi, en hraðallinn er nú keyrður í fjórða sinn. Markmið Startup SuperNova er að byggja upp viðskiptalausnir fyrir alþjóðamarkað og gera þær fjárfestingahæfar. 

Huawei hefur áður komið að Startup SuperNova en árið 2021 kostaði fyrirtækið sæti fyrir eitt sprotafyrirtæki í hraðlinum.

Fjarskipta- og símafyrirtækið Huawei var stofnað árið 1987 og er eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki heims.

„Tækifærin sem liggja hjá íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum eru gríðarleg en einmitt þess vegna ákváðum við að koma að Startup SuperNova í ár. Við vonumst til þess að þekking okkar og reynsla komi þátttakendum að notum og við hlökkum til að miðla hugmyndum áfram á alþjóðlega markaði,“ segir Beatriz Garcia Martinez, samskiptasérfræðingur hjá Huawei.

Startup SuperNova verkefnið, sem er í umsjón KLAK Icelandic Startups, hefst með Masterclass námskeiði dagana 22.-23. júní þar sem sprotar munu fá þjálfun og leiðsögn í að útbúa átján mánaða aðgerðaráætlun fyrir verkefnin sín. Þeir sprotar sem taka þátt í Masterclass geta svo sótt um að taka þátt í sjálfum viðskiptahraðlinum. 


„Það er mikið ánægjuefni fyrir KLAK að vinna með svona sterkum samstarfsaðilum. Nova hefur stutt dyggilega við Startup Supernova frá því að hraðallinn var stofnaður árið 2020 og það er ánægjulegt að fá nú inn annan öflugan aðila eins og Huawei sem bakhjarl,“ segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK-Icelandic Startups.

is_ISÍslenska