Tíu öflugir sprotar kynntu verkefnin sín hátíðarsal Grósku fyrir fullum sal af fjárfestum, bakhjörlum og öðrum gestum á lokadegi Startup Supernova hraðalsins á dögunum. Viðskiptahraðalinn hefur staðið yfir í sex vikur en markmiðið með honum er að hraða framþróun þeirra sprota sem taka þátt og gera þau fjárfestingarhæf.
Startup SuperNova er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki og vettvangur til tengslamyndunar við aðila í atvinnulífinu, reynda mentora og frumkvöðla sem hafa yfir að ráða þekkingu og reynslu af sprotaumhverfinu. Í ár hófst hraðallinn á Masterclass þar sem fjölmargir sérfræðingar, fagfólk og frumkvöðlar í íslensku atvinnulífi miðluðu þekkingu sinni og reynslu til fjölda sprotafyrirtækja. Tíu fyrirtæki voru svo valin til áframhaldandi þátttöku í Startup SuperNova eftir strangt umsóknarferli.
Sprotarnir sem komu fram og kynntu hugmyndir sínar í hátíðarsal Grósku voru Knittable, Astrid, Synia, Quality Master, KuraTech, Lóalóa, ModulHR, Revolníu, Skarpur og Souldis.
Ýmsir áhorfendur höfðu á orði að mörg þessara nýsköpunarverkefna sem væru á heimsmælikvarða.„Startup SuperNova hefur fest sig í sessi sem einn af mikilvægustu viðskiptahröðlum á Íslandi þar sem sprotafyrirtæki fá gott veganesti til að vaxa og dafna eftir að hraðli líkur. Tíu frambærileg sprotafyrirtæki voru valin úr hópi fjölda umsókna og við sjáum að þar á meðal gætu leynst næstu sprotastjörnur Íslands. Við hlökkum til að fylgjast með þessum öflugu sprotum í framtíðinni.” Segir Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Startup Supernova hjá KLAK – Icelandic Startups.
Startup Supernova er samstarfsverkefni Nova og KLAK – Icelandic Startups með stuðningi Huawei þar sem leitast er við að byggja upp viðskiptalausnir ætlaðar alþjóðamarkaði.