fbpx

Ráðherra skrifaði undir samning við Snjallræði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra skrifaði undir samning um samstarf við KLAK um samfélagsvaxtarrýmið Snjallræði og er þetta í fyrsta sinn sem ráðuneytið starfar með KLAK.

„Við erum virkilega ánægð með að sjá ráðuneytið koma inn í verkefnið af svona miklum krafti. Nýsköpunarfyrirtæki sem stunda samfélagslega nýsköpun sjá oft ríkið sem sinn fyrsta viðskiptavin og það er mikilvægt að þekkja áskoranir og væntingar ráðuneytisins. Þau koma ekki aðeins inn með fjárhagslegan stuðnings heldur þekkingu og reynslu sem skiptir Snjallræði ekki minna máli“ – Kristín Soffía, framkvæmdastjóri KLAK

Snjallræði er ætlað að draga fram, efla og styðja nýja tækni og aðferðir sem styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í samfélaginu.

Snjallræði er samstarfsverkefni Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Umsjónaraðili er KLAK – Icelandic Startups sem býr yfir áralangri reynslu af nýsköpun og þróun viðskiptahugmynda. Til þátttöku árið 2022 voru valin tíu sprotafyrirtæki.

Snjallræði er unnið í samstarfi við bandaríska háskólann MIT og koma sérfræðingar frá háskólanum til landsins og vinna með þátttakendum. Auk þess hitta teymin reynda frumkvöðla, fjárfesta og aðra sérfræðinga úr atvinnulífinu. Að 16 viknum liðnum eiga þátttakendur að vera í stakk búnir til að kynna verkefni sín fyrir fjárfestum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Það er ánægjulegt að taka þátt í að styðja frumkvöðla sem brenna fyrir nýjum lausnum í velferðar- og samfélagsmálum. Fjölbreyttar áskoranir kalla á fjölbreyttar lausnir og það er mikilvægt að svona vettvangur sé til þar sem vonandi upp spretta góðar lausnir.“