fbpx

Orkuveitan styður við hringrásarhagkerfi með Hringiðu

Orkuveitan hefur nú gengið til samstarfs við KLAK – Icelandic Startups til að verða einn af bakhjörlum viðskiptahraðalsins Hringiðu. Markmið Hringiðu er að stuðla að nýsköpun í þágu hringrásarhagkerfisins, skapa verðmætar lausnir og efla umhverfis- og loftslagsaðgerðir. Verkefnið miðar að því að efla þróun nýrrar tækni sem leysir raunverulegar áskoranir á sviði umhverfismála og að gera Ísland að leiðandi afli í þessum málum á alþjóðavettvangi.

Styrkur Orkuveitunnar liggur í þekkingu á nýsköpunarferlinu, allt frá stofnun hitaveitunnar til nútíma lausna á borð við Carbfix, sem hefur slegið í gegn á alþjóðlegum vettvangi. Þessi reynsla undirstrikar stefnu Orkuveitunnar um að nýsköpun sé undirstaða sjálfbærrar þróunar. „Stuðningur við verkefni sem Hringiðu fellur fullkomlega að stefnu okkar um að vera í fararbroddi í sjálfbærni og nýsköpun. Með þátttöku okkar leggjum við bæði til fjármagn og sérfræðiþekkingu sem styrkir framtíðarsýn verkefnisins,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar.

Samstarfssamningurinn við Hringiðu er til eins árs og styrkir áframhaldandi áherslu Orkuveitunnar á að þróa lausnir sem stuðla að orkuskiptum og umhverfisvernd, með það að markmiði að skapa arðbæra framtíð og þekkingardrifinn útflutning.

Sævar Freyr Þráinsson forstjóri Orkuveitunnar, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri KLAK – Icelandic Startups og Hera Grímsdóttir framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni.
© Jóhanna Rakel
is_ISÍslenska