
KLAK – Icelandic Startups í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Stúdentafélag háskólans á Akureyri blésu í stóru lúðrana í Menningarhúsinu Hofi á föstudaginn þegar vísindaferð Gulleggsins á Norðurlandi var keyrð í gang. Magnús Daði Eyjólfsson, verkefnastjóri Gulleggsins, ásamt Jennu Björk Guðmundsdóttur verkefnastjóra hjá KLAK opnuðu vísindaferðina en hún er haldin í annað skiptið á Akureyri. Gulleggið er stærsta frumkvöðlakeppni Íslands og eru viðburðir haldnir í samstarfi við háskólana í aðdraganda keppninnar þar sem markmiðið er að kynna keppnina fyrir háskólanemum.
Magnús Daði Eyjólfsson fór yfir helstu lykilatriði hvað varðar þátttöku í stærstu frumkvöðlakeppni Íslands við góðar undirtektir úr salnum og í kjölfarið stigu fulltrúar Háskólans á Akureyri á svið, Silja Jóhannesar Ástudóttir, samskiptastjóri Háskólans á Akureyri og Æsa Katrín Sigmundsdóttir, formaður Nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar hjá SHA. Silja sem er ekki ókunn nýsköpunarumhverfinu en starfaði áður hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, talaði fyrir góðu gengi allra frumkvöðla hvaðeina af vestur-, norður – og austurlandi og hvatti öll í salnum að vinna að því markmiði að fá Gulleggið 2024 norður.
Það var dúndur stuð á tónlistarstjörnunni Húgó, nýliða ársins 2022 á Hlustendaverðlaununum, en hann hristi rækilega upp í lýðnum sem samankominn var í Hömrum í Hofi en þar mætti hann með fjólubláa villikattar hjálminn sinn fræga sem hefur vakið mikla athygli.
Meðal bakhjarla sem voru með kynningarbása í Hofi voru Háskólinn á Akureyri, Landsbankinn, KPMG, Hugverkastofa, Bifröst og Héðinn hf. en Coca Cola Europacific Partners á Íslandi sem einnig er bakhjarlar bauð upp á drykki.














