fbpx

Masterclass Startup SuperNova keyrður í gang í Grósku

Masterclass Startup SuperNova var haldin á dögunum í hátíðarsal Grósku þar sem allir helstu sérfræðingar, fagfólk og frumkvöðlar í íslensku atvinnulífi miðluðu þekkingu sinni og reynslu fyrir sprotafyrirtæki og áhugafólk um sprotaumhverfið. Magnús Scheving frumkvöðull og athafnamaður opnaði viðburðinn við gríðarlega góðar undirtektir úr salnum og setti þar með tóninn fyrir það sem kom á eftir. 

Einn helsti frumkvöðlamentor landsins, Magnús Ingi Óskarsson, hélt mikilvægan fyrirlestur um það hvernig hægt er að kortleggja nákvæmlega þær þarfir sem væntanlegir notendur hafa áður en farið er í að þróa lausn til að vera viss um að lausnin henti örugglega þörfum markaðarins og nái árangri.

Það er afar gaman að upplifa þennan mikla kraft sem er í frumkvöðlaumhverfinu og sást svo vel í áhuga og orku þátttakendanna í dag.  Masterclassinn og svo Startup SuperNova hraðallinn sjálfur er góður vettvangur fyrir sprota til að komast í kynni við fagaðila úr atvinnulífinu, byggja upp tengslanetið og ná að þróa og þroska hugmyndirnar sínar hratt og örugglega. Ég vildi að ég hefði haft aðgang að svona umhverfi þegar ég var að hefja mína frumkvöðlavegferð.“ segir Magnús Ingi Óskarsson, frumkvöðull og mentor.

Magnús Árnason framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova fór með erindi á öðrum degi Masterclass þar sem hann fór yfir hvernig félagið hefur hagnýtt sér fjölbreytt verkfæri í stafrænni vegferð sinni á krefjandi markaði.  

Það var virkilega ánægjulegt að sjá yfir 60 sprotafélög taka þátt í MasterClass SuperNova og vera þar með tilbúin að setja skölun á sínum hugmyndum í forgang. Nova leiddi þetta verkefni af stað með Klak og Grósku einmitt með það fyrir augum að veita svona ofurhugum sprengikraft til að ferja hugmyndir sínar um heim allan”. Segir Magnús Árnason framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova. 

Þau sem komu fram á Masterclass voru Magnús Scheving frumkvöðull og athafnamaður, Magnús Ingi Óskarsson frumkvöðull og mentor, Þóra Hrund Guðbrandsdóttir annar eiganda og framkvæmdastjóri MUNUM, Erna Erlendsdóttir útflutningsstjóri MS, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir meðeigandi í vísissjóðnum Brunni Ventures, Magnús Árnason framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova, Guðjón Már Guðjónsson einn stofnenda og framkvæmdastjóri Oz, Kristján Schram hjá Instrúment, Davíð Rafn Kristjánsson framkvæmdastjóri Swapp Agency, Helga Árnadóttir einn eigenda og framkvæmdastjóri Tulipop, Pétur Jóhannes Óskarsson afhendingarstjóri hjá Controlant, Ari Kristinn Jónsson forstjóri Awarego, Hjálmar Gíslason framkvæmdastjóri Grid, Mariam Laperashvili markaðsstjóri fjölmiðla Stöðvar 2, Sigríður Heimisdóttir sérfræðingur hjá Rannís og Sara Digné frá Scaling School í Svíþjóð.

is_ISÍslenska